http://simnet.is/silfurskogar/sitemap.xml.gz

Dúfur

tiplbak

Dúfur hafa verið húsdýr manna í mörg þúsund ár víðsvegar um heim. Bæði ríkir og fátækir hafa haft þær til matar .  Þær voru einu fuglarnir sem mátti nota sem fórnardýr við helgiathafnir og síðast en ekki síst voru þær notaðar til að flytja skilaboð.  Það eru mjög fáar fuglategundir sem  ala ungana fyrstu ævidagana á svokallaðri sarpmjólk.  Um það leyti sem ungar dúfunnar skríða úr eggjunum verður til hvítur drafli í sarp dúfunnar sem kallast dúfnamjólk. Dúfan elur  ungana á þessum drafla fyrstu ævidagana.  Þegar  dúfan drekkur vatn teigar hún það í sig líkt og mannskepnan. Einhverjar elstu heimildir sem til eru um dúfur  má rekja til Austulanda nær þar sem vöggu siðmenningar okkar er að leita til landsvæðis þar sem nú er Íran og Írak.  Mörg stór ríki risu á þessu landsvæði í tímanna rás eins og Súmer, Akkað og Babilonía.  Kaldear koma við sögu á þessu landsvæði á sjöundu öld fyrir Krist.  Til eru mjög gamlar heimildir um dúfnahald frá Egyptalandi.   Einnig  frá Ben Sean svæðinu í Jórdandalnum   Menn hafa getið sér  til um að á dögum Gamla testamentisins hafi uppgötvast fyrir tilviljun ratvísi dúfnanna og ást þeirra á heimahögunum.  Á þessum tímum tóku ferðalög oft langan tíma  jafnvel svo vikum og mánuðum skipti.  Talið er að menn hafi tekið með sér lifandi dúfur í ferðirnar til að hafa ferskt kjötmeti að borða.  Við ýmsar aðstæður hafi svo dúfurnar sloppið frá mönnunum.  Þegar þeir komu heim úr ferðunum voru dúfurnar komnar heim á undan þeim.  Þannig hafi þeim hugkvæmst að hægt væri að flytja skilaboð með þeim á milli staða. Dúfur  koma við sögu í helstu trúarbrögðunum einkum meðal Gyðinga og  Kristinna manna.  Í Biblíunni er oft minnst á dúfur bæði í Gamla- og Nýja testamenntinu.  Í fyrstu Mósebók 8, 8-11 er sagt frá því þegar Nói sendi dúfuna frá Örkinni til að leita lands og hún kom aftur með ólífuviðargrein í nefinu.  Í ritverkinu Ancicent Egyptians er falleg saga  um dúfuna  en  þar  segir frá  því  þegar  dúfan lenti á Örkinni með ólífuviðargreinina hafi fætur hennar verið ataðir rauðum leir.  Í gleði sinni bað Nói til Guðs um að eftirleiðis myndu fætur dúfnanna halda þessum rauða lit.  Í Nýjatestamenntinu ber hæst frásögnin í Matteusar- Guðspjalli 3,16 þegar  Jesús var skírður „ sté hann jafnskjótt upp úr vatninu, og þá opnuðust himnarnir, og hann sá anda Guðs stíga niður eins og dúfu og koma yfir sig“.  Alla tíð síðan hefur dúfan verið eitt helsta tákn um frið og kærleika um heim allan. Í Islamstrúnni er dúfunni einnig sýnd mikil virðing. Til er sögn um það að einhverju sinni var Múhameð spámaður eltur af fjandmönnum sínum upp um fjöll og hafi hann þá falið sig í helli nokkrum fyrir mönnunum.  Þegar fjandmenn Múhameðs komu að hellismunnanum sáu þeir dúfu liggja rólega á hreiðri sínu.  Þeir ályktuðu sem svo að enginn væri í hellinum, vegna þess að dúfan sat róleg á hreiðrinu og fóru við svo búið.  Þannig bjargaði dúfan Múhameð með ró sinni. Í Hindúatrú má ávallt sjá einn elsta ástarguð þeirra Kamadeva  með dúfu. Ef til vill er það kaldhæðnislegt að dúfur hafa löngum verið í herþjónustu.  Talið er að herir Salomons konungs hafi notað dúfur til að koma skilaboðum á milli. Ótal heimildir eru til um að Rómverjar og Grikkir hafi notað þær í hernaði.  Einnig eru til  góðar heimildir um notkun á dúfum á miðöldum þ.e. á tímum krossferðanna.  Krossfararnirnotuðu þær mikið til að flytja skilaboð á milli.  Þegar Napelon beið ósigur við Waterloo árið 1815 fyrir Wellington. Bárust fréttirnar af sigrinum  með bréfdúfu til Englands. Eftir því sem nær dregur  okkar tíma höfum við betri heimildir um þátt dúfna á stríðstímum.  Þær voru mikið notaðar í báðum heimstyrjöldunum og hafa margar þeirra verið sæmdar orðum fyrir ótrúlega ratvísi, sem bjargaði þúsundum mannslífa. Í seinni heimstyrjöldinni höfðu t.d. Bretar dúfur í öllum sínum hersveitum.  Bandaríkjaher seldi síðustu fuglana úr sinni þjónustu fyrir fáum árum. Þá hefur dúfan verið óþrjótandi uppspretta fyrir listamenn og skáld í gegnum aldirnar.  Danskir kaupmenn hafa að öllum líkindum komið með fyrstu ræktuðu dúfurnar til landsins.  Í grein Jóns Aðils um einokunarverslun Dana á Íslandi  (verslunarhús og verslunarþjónusta). Segir frá því að Eyrabakkakaupmaður hafi haft dúfur hjá sér uppi á skammbitalofti.  Segja má að ræktun á dúfum hér á landi  hafi lengst af verið í höndum Dana. Í seinni tíð lögðu þeir nafnar Valdemar Sörensen og Valdimar Nilsen grunninn að þeirri ræktun sem er í dag. Ræktunardúfur eru komnar út af ætt dúfna sem nefnist á latínu Columbidae en hún telur tæplega 300 tegundir dúfna sem skiptast niður í nokkrar undirtegundir.   Ræktunardúfur eru mannanna verk. Þær hafa verið ræktaðar út frá villtum dúfnastofnum í margar aldir.  Ekki er alveg ljóst hvaða tegundir hafa verið notaðar í upphafi. En  menn eru nokkuð ásáttir um að formóðir ræktunardúfnanna sé bjargdúfan ( Columba livia ) .  Hún lifir villt víða um heim.  Síðan hafi verið blandað við bjargdúfuna þrem til fjórum öðrum villtum dúfnategundum. Ræktunardúfum er skipt niður í marga flokka sem aftur er skipt niður í  undirflokka.  Flokkarnir skarast meira og minna þannig að erfitt er að flokka þær af vísindalegri nákvæmni.  Auðveldast er að skipta þeim í þrjá megin flokka flugdúfur, skrautdúfur og götudúfur. Í flokki flugdúfna eru keppnisdúfur sem fljúga meira eða minna frjálsar eins og bréfdúfur.  Þær flokkast til svokallaðra Form pigeons eða dúfna sem bera sterk útlitseinkenni bjargdúfunnar. Það er á árunum í kringum 1870 sem bréfdúfan sem við þekkjum í dag kemur fram á sjónarsviðið.   Að megin stofni til ættuð frá Belgíu harðgerður fugl og með mikinn vilja til að koma heim.  Á þessum tíma voru dúfur mikið notaðar til að flytja skilaboð á milli borga Evrópu eins og stórborganna Brussel, Lundúna og Parísar. Einnig héldu þær uppi reglulegu póstflugi milli bæja og borga í Belgíu. Reuther fréttastofan hafði  bréfdúfur á sínum snærum fyrstu árin sem hún starfaði til að fá nýjustu fréttirnar sem fyrst. Á þessum árum fer kappflug með dúfum að verða vinsæl íþrótt.  Fyrst meðal þeirra efnameiri. Enda voru samgöngur frekar seinvirkar og mjög kostnaðarsamt að senda fuglana til keppni.  Eftir því sem samgöngur komust í betra horf varð þessi keppnisíþrótt vinsælli meðal almennings.  Um langt árabil hafa félagar í Dúfnaræktarsambandi Íslands lagt stund á kappflug með bréfdúfum frá mörgum stöðum á landinu. Tipplarar og rollarar eru einnig flugdúfur en flokkast til Tumblers pigeons,  fugla sem sýna ýmsar fluglistir. Í flokki skrautdúfna eru sýningardúfur. Þessir fuglar eru hafðir í búrum og fá sjaldan að fljúga frjálsir.  Skrautdúfur eru ræktaðar eftir ákveðnum „standard“ eða teikningu þar sem dregnar eru ákveðnar útlitslínur og dæmt eftir þeim á sýningum.  Stórar sýningar eru haldnar víða erlendis þar sem verið er að sýna allt að fimmtíu þúsund dúfur á sömu sýningunni.  Hér á landi hafa verið haldnar sýningar með reglulegu millibili um árabil á vegum Skrautdúfufélags Íslands.  Einnig hefur verið sköpuð glæsileg aðstaða fyrir skrautdúfur í Húsdýragarðinum í Reykjavík. Þar getur almenningur skoðað þessa fallegu fugla í ró og næði dag hvern. Skrautdúfurnar eiga flestar uppruna sinn að rekja til  Austurlanda nær og fjær og til miðalda klaustranna í Evrópu.  Yfirleitt  ber hver tegund  nafn þess staðar eða héraðs þar sem hún er upphaflega ræktuð.  Íslensk nöfn á dúfum hafa oftast verið dregin beint af erlenda nafninu oftast úr dönsku eða ensku.  Í einstaka tilfellum hafa nöfn verið íslenskuð.  Nefna má úr flokki skrautdúfna dúfur eins og Norwich pústara sem flokkast til Pouters pigeons en þessir fuglar blása upp sarpinn á mikilfenglegan hátt. Kínverskar uglur flokkast til Feather pigeons þar sem ræktandinn glímir við flókna fjaðrasveipi.  Smáhöfðar eins og Elbingar og afrískar uglur eru gott dæmi um dúfnategund sem er búið að misþyrma svo í ræktuninni að goggurinn er nánast horfinn.  Þessir fuglar geta ekki alið upp ungana sína sjálfir til þess verður að nota fósturforeldri.  Litur skiptir  miklu máli í ræktun á skrautdúfum eins og nafnið bendir til.  Modenur sem komu upphaflega frá bænum Modena á Ítalíu og voru á þeim tíma flugdúfur ( triganieri ) eru ræktaðar í meira en tvö hundruð litarafbrigðum. Götudúfur (skræpur) er blandaður hópur dúfna  sem hafa farið frá eigendum sínum af mörgum orsökum og leita nú uppruna síns.  Oft eru í bland við götudúfurnar bjargdúfur.  Þessi misliti hópur dúfna  hefur í gegn um árin verið heimsbyggðinni til mikillar ánægju nema okkur Íslendingum. Hér á landi er rekin áróður gegn þessum fuglum af fákunnandi mönnum.  Á  torgum stórborganna má sjá götudúfur sem fólk á öllum aldri nýtur þess að gefa þeim í svanginn og skila um leið góðverki dagsins minnugir þess að  dúfan er eitt helsta tákn um frið og kærleika um heim allan.

             

                                                                                      Trausti Tryggvason

                                                                                 

Silfurskógar ehf.  Silfurgötu 41  340 Stykkishólmi. Símar  8642341   7772341