http://simnet.is/silfurskogar/sitemap.xml.gz

Kanínur 2

Kanínur eru af ættinni Leporidae sem skiptist niður í 6-9 ættliði. Einna þekktust er evrópska villikanínan Oryclolagus cuniculus. Kanínur teljast ekki til eiginlegra nagdýra. Líffræðilegur munur  á þeim og  nagdýrum er þó ekki ýkja mikill. Fæðuval kanínunnar er einhæfara og eingöngu bundið við plöntur og afurðir þeirra eins og stilka, blöð, aldin og fræ. Einhverjar elstu rituðu heimildir um kanínur eru ritaðar af Grikkjum á dögum Krists. Talið er að Rómverjar hafi fyrstir manna notfært sér hversu auðvelt er að ferðast með kanínurnar. Þeir hafa haft þær með sér sem ferskt kjötmeti á ferðum sínum um rómverska ríkið. Á stærri áningastöðum og bæjum voru hlaðnir steingarðar sem þeim var haldið í. Frakkar eiga aftur á móti heiðurinn af nútíma kanínurækt. Ætla má að á miðöldum hafi kanínurækt verið vinsæl í klaustrunum og þaðan hafi þróast margar af þeim kanínutegundum sem við þekkjum í dag. Á miðöldum þegar galdratrúin reis sem hæst var álitið að kanínur hefðu þá eiginleika eða kraft til að verjast illum öndum. Þetta notfærðu menn sér á þessum tímum á mismunandi hátt eftir löndum Oftar en ekki hefur almenningur ruglast á muninum á kanínu og héra. Nokkur líffræðilegur munur er á hérum og kanínum. Afkvæmi héranna koma til þessa heims ofanjarðar, móðirin gerir þeim hreiðurlaga bæli á afviknum stað. Héraungarnir fæðast hærðir (með feld) og nær tilbúnir að takast á við veruleikann. Meðan kanínuungarnir fæðast naktir og blindir í holu langt niðri í jörðinni og sjá ekki dagsbirtu fyrr en þeir eru orðnir 4-6 vikna gamlir. Þessi líffræðilegi munur gerir það, að kanínur og hérar geta ekki átt afkvæmi saman. Ekki bætir heldur úr skák að nokkrar hérategundir bera kanínunöfn eins og Snowshoerabbit og Jackrabbit svo eitthvað sé nefnt. Ein ræktuð kanínutegund ber héranafn Belgian Hare sem að sjálfsögðu er ekki héri heldur ákaflega rennileg kanína sem líkist héra. 

 Ræktaðar kanínur telja mun fleiri tegundir en villtar kanínur enda eru kanínur auðræktaðar en alþjóðlegt samþykki þarf fyrir hverri nýrri tegund. Ræktuðum kanínum er gjarnan skipt niður í tvo meginflokka húsdýr og gæludýr síðan er þeim skipt niður í fjóra stærðarflokka, risakanínur sem eru frá 6-12 kg, stórar kanínur sem eru á bilinu 3-6 kg, smákanínur um 2- 3 kg og dvergkanínur sem eru undir 1 1/2 kg. Kanínutegundirnar sem eru viðurkenndar í heiminum í dag eru 61 og koma fyrir í 531 tilbrigði. Með hugtakinu húsdýr er átt við kanínur sem búið er með sem atvinnugrein. Þar ber helst að nefna kjötafurðir, feld, skinn og fiðu. Kanínur sem notaðar eru til kjötframleiðslu vaxa gjarnan mjög hratt. Viðkoman er einnig mikil þannig að kjötframleiðslan getur farið í allt að 45 kg á ársgrundvelli. Oftar en ekki fer það saman að sama tegundin gefur af sér fleiri en eina afurð eins og kjöt og feld eða kjöt og fiðu sem er að sjálfsögðu hagkvæmur kostur fyrir bóndann.  Með hugtakinu gæludýr er átt við að ræktunin sé í höndum leikmanna ýmist í þéttbýli eða til sveita. Þetta eru ræktendur sem nota þær á marga vegu eins og til að búa til nýjar tegundir, til sýninga, fá af þeim hefðbundnar afurðir eins og kjöt og feld til einkanota og neyslu. Þá eru dýrin höfð í útihúsum mismunandi gerðar eftir ríkjandi veðurfari á hverjum stað. Á seinni árum hafa minni kanínurnar orðið mjög vinsæl inni- eða stofudýr.  Að sjálfsögðu skarast svo þessir flokkar meira og minna. Það er ekki óalgengt að kanínur sem teljast til húsdýra um langt skeið eins og feldkanínur flokkist allt í einu til gæludýra þar sem straumar fatatískunnar ráða ríkjum og fólk hefur ekki áhuga eða efni á að ganga í náttúrulegum klæðum heldur velur sér gerviefni til daglegra nota. Tískustraumarir eru að sjálfsögðu að því góða því oftar en ekki vernda þeir villtar dýrategundir frá útrýmingarhættu. Á árunum þegar angóra kanínurnar voru fluttar inn til landsins var nokkuð rætt um hvað ætti að nefna karldýr, kvendýr og afkvæmi kanínunnar. Ekki man ég eftir því að nein ákvörðun hefði verið tekin í því sambandi. En ég varð mjög hrifinn af einni tillögunni í henni var karldýrið nefnt kani og kvendýrið kæna. Kænan gýtur ungunum sem nefndir eru kanínuungar eða bara ungar sem á mjög vel við þar sem kænan gerir nokkuð stórt hreiðurlaga bæli þar sem hún bælir ungana niður meðan þeir eru að ná þeim þroska að geta skoðað umhverfi sitt. Hér eftir mun ég nota þessar nafngiftir í greininni. Ræktaðar kanínur koma fram í mjög mörgum litaafbrigðum. Fyrst skal telja hefðbundinn lit á villikanínum sem kallast kanínugrár (agoti), síðan má nefna hvítan, svartan, bláan, brúnan, rauðan, gulan, bleikan og chinchilla. Kanínurnar eru svo ýmist einlitar eða marglitar eftir tegundum. Háralag er og mjög mismunandi eftir tegundum. Rex kanínurnar eru með mjög stutt hár eða um 1 cm, hjá þeim eru undir og yfirhár í sömu lengd og feldurinn er undurmjúkur viðkomu. Loðkanínurnar hafa allt að 15 cm langa fiðu. Á sumum tegundum ýfist hárið upp ef dýrinu er strokið öfugt meðan hárið á öðrum flýgur aftur í sömu skorður og það var. Áferð háranna er einnig mjög mismunandi eftir tegundum. Sumar tegundirnar glansa mjög mikið meðan aðrar eru hálfglansandi, mattar eða með satíngljáa.

 Augnlitur er yfirleitt bundinn ríkjandi lit kanínunnar og  teikningu (ræktunarstaðli). Kanínur sem einstaklingar eru mjög mismunandi eins og allt sem lífsandann dregur. Yfirleitt eru stærri kanínurnar með meira jafnaðargeð heldur en þær minni.  Geðslagið er að nokkru bundið tegundum. Sumar tegundir eru langt frá því að vera barnameðfæri meðan aðrar tegundir eru undurljúfar. Kaninn er undartekningalítið mun ljúfari en kænan sem á það til vera illskeytt,  sérstaklega um fengitímann, meðan hún gengur með unga og eftir að hún hefur gotið þeim. Vegna þess hve kanínur eru í sjálfu sér auðveldar í ræktun og frjósamar er mjög auðvelt fyrir hvern ræktanda að rækta fram ákveðin skapgerðareinkenni. Það gerist í raun að sjálfu sér eða ómeðvitað bundið einstaklingnum sem ræktar hverju sinni. Kanínur eru í sjálfu sér ekki hávaðasöm dýr. Mesti hávaðinn kemur frá könunum þegar þeir sparka niður afturfótunum til að gefa öðrum kanínum merki um að eitthvað óvænt eða hætta steðji að. Kænurnar sparka einnig niður afturfótunum þó í mun minna mæli. Kanínur gefa frá sér hljóð. Kaninn líður útaf í sársauka kenndu ópi við mökun. Kænan gefur oft frá sér frygðarkennd hljóð hjá kananum og þegar komið er við hana um fengitímann. Niðurbælt hvæsandi urr kemur frá kænunum þegar skapið fer alveg með þær og þær ráðast til atlögu við eigandann eða hirðinn. Mjög áþekkt skipandi hljóð kemur og frá þeim þegar þær eru að aga ungana þegar þeir taka fyrstu sporin til að kanna umhverfið. Kanínur gefa einnig frá sér skerandi sársaukafull hljóð ef þær finna mikið til eða verða hræddar. Fullorðnar kanínur sem ekki hafa verið aldar upp saman eru oft mjög illvígar og þá sérstaklega kanarnir sem berjast fram í rauðan dauðan með viðeigandi hljóðum og hávaða. Kænan gengur með í 28-31 dag. Nokkru fyrir gotið fer hún að hreiðra um sig á afviknum stað í búrinu. Nokkuð er það einstaklingsbundið hvenær þær byrja að reita af sér hárin og hve mikið. Mest taka þær af bringunni niður á milli framfótanna, eitthvað aftur eftir maganum og kring um spenana. Dvergvöxnu kanínurnar eignast gjarnan 1-4 unga meðan þær stærri skila 8-14 ungum. Kanínur geta eignast afkvæmi 3-5 sinnum á ári eftir aðbúnaði. Eftir að kænan hefur gotið ungunum er rétt að láta þá sem lengst í friði jafnvel fyrstu tvær vikurnar en þá fara þeir að kíkja út og skoða umhverfi sitt með forvitnum augum. 
Hér á landi eru til nokkrar tegundir af kanínum helstar eru: Castor Rex feldkanínur og Angora loðkanínur þessir tveir kanínustofnar eru svo til hreinræktaðir og kanínurnar allstórar eða 4 -5 kg. Lop- eared eða loppur eru kanínur með lafandi eyru. Mest er til af nokkuð stórum loppum 4 - 6 kg. en ein og ein minni sést öðru hvoru. Loppurnar sem eru hér á landi eru mikið blandaðar við aðra kanínustofna. Ekki sést mikið af miðlungsstórum kanínum þessi árin en þær eru gjarnan til hjá þeim sem eru í kjötframleiðslu og þá gjarnan nefndar holdakanínur, sjálfsagt til að aðgreina þær til manneldis. Mörg tilbrigði af smákanínum eru í ræktun sjást í gæludýrabúðum. Þær eru gjarnan komnar út af kanínum sem nefnast Dutch eða Hollenskar- kanínur og má þekkja þær af frekar löngum eyrum miðað við skrokkstærð og litasamsetningunni. Eiginlegar dvergkanínur eru ekki til hér á landi en mjög smávaxnar ( smákanínur ) en en þær eru ekki hreinræktaðar. Helstu einkenni á smákanínunum eru að þær eru frekar smávaxin dýr með mjög stutt eyru, breiðan haus og stór augu. Lionhead kanínur voru fluttar inn fyrir um áratug ( 2005) síðan.                        

                                                                                     Trausti Tryggvason

Silfurskógar ehf.  Silfurgötu 41  340 Stykkishólmi. Símar  8642341   7772341