http://simnet.is/silfurskogar/sitemap.xml.gz

Kanínur 3


Erfiðar kanínur

Algeng orsök fyrir því að kanína  fari að bíta er að haldið hefur verið óvarlega á henni einhven tíma. Hún kreist of mikið, orðið lofthrædd, eða dottið. Næst þegar á að taka hana upp verður hún hrædd og ver sig. Ef sá sem tekur hana upp bregður mikið þ.e.a.s. kippir snögglega að sér hendinni ef hún bítur eða nartar er leikurinn gott sem tapaður. Kanínan hefur fundið  leið til að vera í friði og það eina sem hún þarf að gera til þess er að bíta svolítið. Það eru til mjög margar tegundir af kanínum í heiminum, mjög fáar af þeim (tegundunum) eru  góð gæludýr og enn síður fyrir börn. Í sumum tilfellum ræktast upp óeðli í kanínustofni sem annars á að vera mjög ljúfur. Þá er oftast um að ræða að einhver blöndun við óæskilega kanínustofna hafi átt sér stað og eða að ræktandinn stendur sig ekki. Það getur tekið þig margar vikur og mánuði að vinna aftur traust kanínunnar oftast er það þess virði og gagnkvæmt samband verður þá á milli þín og kanínunnar. Það á ekki að kaupa kanínur frekar en önnur  dýr nema maður viti eitthvað um þann sem ræktar þau og eða selur.

Hárlos

Það virðist oft sem hvítar kanínur hafi meira hárlos en aðrar. í mörgum tilfellum er háralitnum um að kenna vegna þess hversu auðvelt er að sjá hárin. Það geta verið margar orsakir fyrir því að kanínur fari oftar úr hárum en æskilegt er. Oftast er of heitt á þeim. Stærri fóðurbreytingar valda ótímabæru hárlosi.  Það á ekki að vera að baða þær í tíma og ótíma þær geta vel séð um sig sjáfar. Aðal fæða kanínunnar er gras. Best er að gefa þeim hey (þurrt gras) allt árið um kring. Með heyinu eiga þær að fá  korn t.d. bygg.  Smákanína þarf um 80 gr. á dag af kornblöndu. Ef sólblómafræ eru í blöndunni er rétt að taka þau úr fyrstu vikurnar. Gott er að gefa kanínunum smá eplabita öðru hvoru. Þegar kemur fram á vorið er rétt að gefa þeim 2-4 nývaxin blöð af túnfífli, skógarkerfil og alaskavíðiblöð með hinu á hverjum degi. Nauðsynlegt er að passa vel upp á að taka ekki blöðin í rigningu og að engir sniglar séu á blöðunum né að þau séu tekin þar sem hundar og kettir fara um.

Að húsvenja kanínu

Í fyrsta lagi er betra að venja eina kanínu en tvær saman að venjulegum heimilisháttum (það á við um flest öll dýr). Búr þarf að vera til staðar fyrir kanínuna. Best er að hafa allar hliðar búrsins heilar nema framhliðina til að varna því að sífelldur trekkur sé á kanínunni.  Það þarf að vera auðvelt fyrir kanínuna að komast út og inn úr því. Gæta þarf vel að því að búrið standi ekki á gólfi þar sem mikill dragsúgur (trekkur) er. Oftast er viðhöfð sú venja að ala kanínuna upp í búrinu fyrstu vikurnar eða mánuðina, þar á hún að eiga heima og hafa skjól fyrir öllu áreiti. Síðan er kanínunni leyft að fara stund og stund út úr búrinu og tíminn lengdur eftir því sem við á. Kanínan á alltaf að fara aftur í búrið sitt og þar á hún pissa, kúka, borða og drekka. Kanínan á ekki að fá neitt utan búrsins. Hvað varðar alla meðhöndlun þá eru kanarnir oft auðveldari í tamningu en kænurnar. Þeir hafa minni geðsveiflur og það þarf að gelda þá nokkuð snemma, áður en þeir taka upp á ósiðum eins og að pissa hér og hvar og á eigendur sína. Það er yfirleitt erfitt að venja kanínurnar af þeim ósiðum sem þær taka upp á. Kanínur þola illa lykt frá ylmvötnum og rakspírum. Og rétt er að benda á að kanínur geta stokkið ótrúlega hátt. 

Silfurskógar ehf.  Silfurgötu 41  340 Stykkishólmi. Símar  8642341   7772341